Spurt og svarað

Má allur jólapappír fara í bláu tunnuna/ grenndargáminn.

Já jólapappírinn má fara í bláu tunnuna. Ef um mikið magn er að ræða bendum við fólki á að gera sér ferð á næstu endurvinnslustöð með pappírinn og aðrar umbúðir.

Endurvinnslu jól

  • Geymdu jólapappírinn og notaðu hann aftur
  • Notaðu dagblöð, tímarit eða auglýsingabæklinga í stað jólapappírs
  • Notaðu kassa/box, sem hægt er að nota aftur

Í hvað fer ágóði Góða hirðisins, nytjamarkaðs SORPU?

Allur ágóði af sölu Góða hirðinum rennur til góðgerðarmála. Tvisvar á ári eru styrkveitingar þar sem ágóðinn er veittur til valinna félagasamtaka. 2-3 sinnum á ári er haldið uppboð þar sem seldir eru sjaldséðir hlutir sem koma inn, ágóðinn af því er veittur til valins málefnis. Hægt er að sækja um styrk til Góða hirðisins inni á heimasíðu SORPU.

Er allt urðað í sömu holuna sem er skilað til SORPU?

Er allt urðað í sömu holuna sem er skilað til SORPU? Nei SORPA kemur öllum flokkuðum úrgangi í réttan farveg sem skilað er inn. Það sem er urðað er það sem sett er í heimilissorpið, fyrir utan málmana sem eru flokkaðir frá með vélrænni flokkun.

Af hverju er ekki tekið við lífrænum úrgangi á endurvinnslustöðvum SORPU?

Lífrænn úrgangur fer með heimilissorpinu í urðun, með tímanum myndast hauggas og úr því er framleitt bifreiðaeldsneytið metan.

Hvað verður um gler og steinefni sem er skilað inn á endurvinnslustöðvar SORPU?

Allt steinefni er mulið niður og geymt á urðunarstaðnum í Álfsnesi. Efnið er notað sem uppfyllingarefni við framkvæmdir, s.s. vegaframkvæmdir.

Hvaða drykkjarumbúðir bera skilagjald?

Þumalputtareglan er sú að ef þú getur drukkið vökvann beint úr umbúðunum þá er skilagjald á þeim. Flöskur undan óblönduðum djús ber t.d. ekki skilagjald. Hægt er að koma með flokkaðar skilagjaldsskyldar umbúðir á 4 endurvinnslustöðvar SORPU, greiddar eru 16 kr. fyrir hverja einingu.

Hvað verður um það timbur sem skilað er inn á endurvinnslustöðvar?

Allt timbur sem berst til SORPU er kurlað niður, og sent til Elkem á Grundartanga þar sem það er notað sem kolefnisgjafi í framleiðsluna. Á móti kemur að minna þarf að flytja inn af kolum til landsins.

Hvað verður um pappírinn sem ég flokka í bláu tunnuna eða skila í grenndargáma/endurvinnslustöðvar SORPU?

Allur flokkaður pappír og pappi sem berst SORPU er baggaður, settur í gám og fluttur sjóleiðis til Svíþjóðar, þar sem Stena Recycling AB endurvinnur pappírinn í nýjar vörur. www.stenarecycling.com/

Af hverju ætti ég að eyða tíma í að flokka úrgang heima hjá mér?

Við berum öll ábyrgð á þeim úrgangi sem frá okkur kemur. Markviss flokkun dregur úr urðun og stuðlar þ.a.l. að lægri kostnaði við meðhöndlun og förgun úrgangs, sem greiddur er af sveitarfélaginu/íbúum.

Hvert sný ég mér ef sorptunnan mín hefur ekki verið tæmd?

Sveitarfélögin sjá um sorphirðu og tunnur. SORPA er eingöngu móttökuaðili fyrir innihald tunnunnar og kemur að engu leyti að sorphirðu.

Hvernig flokka ég málma?

Málma má setja með almennum heimilisúrgangi, þar sem SORPA er með vélræna flokkun í móttöku- og flokkunarstöðinni sem nær að segla málmana frá. Málmum má líka skila í málmagáminn á næstu endurvinnslustöð. SORPA skilar málmunum til Furu eða Hringrásar þar sem þeim er komið til endurvinnslu.

Hvernig getur maður vitað hvort umbúðir eru plast eða ál, t.d. kaffi- og snakkpokar?

Þumalputtareglan er sú að ef þú krumpar það saman og það sprettur út aftur er það plast, ef það helst samankrumpað er það ál.

Hvernig getur maður verið viss um hvort úrgangur er pappír?

Þumalputtareglan er sú að ef þú getur rifið það, þá er það líklegast pappír.

Hvað á ég að gera við kertaafganga?

Allir kertaafgangar eru sendir til Akureyrar þar sem Bjarg ,verndaður vinnustaður fyrir fatlaða, endurvinnur kertin í ný kerti. Skilið kertaafgöngum á endurvinnslustöð.

Þarf að rífa plasttappana af fernunum?

Nei, plasttapparnir mega fara með í bláu tunnuna/grenndargáminn. Munið að skola fernurnar áður en þær eru settar í tunnuna/gáminn

Þarf að rífa „álfilmuna“ innan úr djúsfernum?

Nei, það þarf ekki sérstaklega að taka hana úr, hún má fara fara með fernunni í bláu tunnuna/grendargáminn. Munið að skola fernurnar áður en þær eru settar í tunnuna/gáminn.

Í hvaða flokk fara sodastreamhylki?

Tómum sodastreamhylkjum má skila í málmgáminn á endurvinnslustöðvunum.

Þarf að taka merkimiðana af plastumbúðunum?

Nei, það þarf ekki að taka merkimiðana af plastumbúðunum.

Má hirða rusl af endurvinnslustöðvunum?

Nei það má ekki, okkur ber að koma því sem berst til okkar í réttan farveg til viðurkennds móttökuaðila.

Hvað verður um plastið sem ég skola samviskusamlega og skila í græna grenndargáminn eða á endurvinnslustöð SORPU?

Allt flokkað plast sem berst SORPU er baggað, sett í gám og flutt sjóleiðis til Svíþjóðar, þar sem Stena Recycling AB endurvinnur plastið í nýjar vörur, það sem ekki er endurvinnanlegt er brennt til orkunotkunar. www.stenarecycling.com/

Þarf að rífa plastgluggann og límröndina af umslögunum?

Nei, það má fara með í bláu tunnuna/ grenndargáminn.

Í hvaða flokk fara umbúðir sem líta út eins og ál en haga sér eins og plast? Eins og td. Snakkpokar?

Þessar umbúðir flokkast sem plast og má skila í græna grenndargáminn. Einföld regla um muninn á plasti og áli: Ef þú krumpar pokann saman og hann þenst út aftur, þá er hann plast. Ef hann helst krumpaður saman þá er hann ál.

Í hvaða flokk fara umbúðir utan af td. Smjörva þar sem boxið virðist vera plasthúðaður pappi en lokið plast?

Umbúðir utan af Smjörva fara í tvo flokka. Lokið flokkast sem plast og má setja í græna grenndargáminn en boxið flokkast sem sléttur pappi og má setja í bláa grenndargáminn.

Á að flokka lokin frá glerkrukkunum? Í hvaða flokk fara lokin?

Já, lokin þarf að flokka frá glerkrukkunum. Krukkurnar fara í steinefnagáminn en lokin í málmgáminn.

Hvar sæki ég um sorptunnu?

SORPA bs. sér hvorki um sorphirðu né sorptunnur. SORPA bs er eingöngu móttökuaðili sorps. Sveitarfélögin sjá um sorphirðu og sorptunnur á sínu svæði.

Hvar afpanta ég sorptunnu?

SORPA bs. sér hvorki um sorphirðu né sorptunnur. SORPA bs er eingöngu móttökuaðili sorps. Sveitarfélögin sjá um sorphirðu og sorptunnur á sínu svæði.

Hvar finn ég losunardagsetningar á sorptunnunum?

SORPA bs. sér hvorki um sorphirðu né sorptunnur. SORPA bs er eingöngu móttökuaðili sorps. Sveitarfélögin sjá um sorphirðu og sorptunnur á sínu svæði.

Má setja götóttan og illa farinn fatnað í gám Rauða Krossins?

Já, Rauði Krossinn endurnýtir illa farinn fatnað. Öll föt, klæði, teppi, rúmföt og annað úr efni má fara í gáminn þeirra. Þegar gámurinn er orðinn fullur er hann sendur í flokkunarstöð Rauða Krossins þar sem heil föt eru flokkuð frá þeim ónýtu. Ónýtu fötin, klæðin og efni eru tætt niður og búið til úr þeim nýjir og endurunnir efnisstrangar til að sauma úr.

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is