6. des. 2018

Vinnum öll að sama markmiðinu, að draga úr plasti og magni úrgangs

Að gefnu tilefni er rétt að taka það fram að SORPA hefur enga hagsmuni af því að verja plastnotkun og hefur aldrei verið sérstakur talsmaður plastpokans, þvert á móti þá erum við öll sammála um að draga þarf úr plastnotkun. Við höfum sem dæmi gefið almenningi yfir 30.000 fjölnota burðarpoka úr endurunnu hráefni, einmitt í því skyni að hvetja til minni notkunar á plasti. 
 
Þá hefur SORPA haldið úti stöðugu fræðslu- og kynningarstarfi, sem allt miðar að því að vernda umhverfið og draga úr úrgangi. Það verkefni er eitt stærsta og flóknasta úrlausnarefni samtímans.
SORPA hefur alla tíð ýtt undir umhverfismeðvitund og fagnað þeirri hugarfarsbreytingu sem ríkir í þjóðfélaginu í anda hringrásarhagkerfisins. Stóra markmiðið er að lítill sem enginn úrgangur verði til, heldur skuli allt efni endurnýtt með einum eða og öðrum hætti. 
 
Endurvinnsla heimila eykst stöðugt, ár frá ári. Heimilin skila í dag meiri úrgangi á endurvinnslustöðvar og í grenndargáma heldur en sótt er í heimilistunnur.  Þess má geta að heimili munu varla urða neitt frá ársbyrjun 2020, með tilkomu nýrrar gas- og jarðgerðarstöðvar sveitarfélaganna og SORPU.
Það eru ekki hagsmunir hjá SORPU að leyfa eða banna notkun plastpoka. Ef banna á notkun þeirra, þá þarf að gera það að yfirveguðu ráði byggðu á vísindalegum grunni þar sem m.a. er tekið tillit til þess hvað kemur í staðinn og með hvaða hætti það er innleitt. Það er ljóst að það að skipta einnota plastburðarpoka út fyrir einnota poka úr öðru efni (t.d. úr lífrænu efni) er engin töfralausn. Ákvörðun um bann við notkun höldupoka verður því að vera byggð á haldbærum rökum sem byggjast á einhvers konar ábatagreiningu. 
 
Endurnýting á plasti hefur margfaldast á undanförnum árum og að sjálfsögðu hlýtur nýsköpun að vera hluti af lausninni, í stóra samhenginu. Hana þarf alltaf að byggja á faglegum forsendum og ræða málefnalega hverju sinni. 
 
Í grunninn hljótum við öll að starfa að sömu markmiðum, að minnka plast í umferð og lágmarka allan úrgang.
 

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is