21. des. 2018

Úrgangur um jól og áramót

Sjaldan fellur til jafn mikið af umbúðum og ýmsum úrgangi eins og í kringum jólin. Það er ýmislegt hægt að gera til að draga úr magninu, t.d. afþakka óþarfar umbúðir og poka, gefa gjafabréf og upplifanir, endurnota gjafapappír, gjafapoka og pakkabönd og svona mætti lengi telja. Þann úrgang sem fellur til ætti svo auðvitað að flokka þannig að nýta megi þau hráefni sem í honum felast. Það dregur úr sóun og álagi á umhverfi og auðlindir, sem margar hverjar eru af skornum skammti eða nýttar á ósjálbæran hátt.

Hvað á að gera við ruslið?

Allur jólapappír má fara í bláu tunnuna, í grenndargáma fyrir pappír eða á næstu endurvinnslustöð. Pakkabönd úr plasti og plastumbúðir fara í grenndargám fyrir plast, er skilað á endurvinnslustöð eða í annan farveg fyrir plast sem sveitarfélögin bjóða upp á (plasttunnur og plast í poka).

Eftir hátíðirnar þegar jólatréð hefur þjónað sínu hlutverki skal því skilað á næstu endurvinnslustöð. Í sumum tilfellum sækja sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu einnig jólatré til íbúa en hægt er að finna upplýsingar um það á heimasíðum þeirra. Á endurvinnslustöðvum er tekið við jólatrjám frá einstaklingum án gjaldtöku, en fyrirtæki, verktakar og stofnanir greiða móttökugjöld samkvæmt gjaldskrá stöðvanna fyrir allan úrgang, þ.m.t. jólatré, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Jólatré sem koma inn á endurvinnslustöðvarnar eru send til frekari vinnslu í Álfsnesi og verða m.a. stoðefni í moltugerð.

Allt sem fer upp kemur aftur niður

Eftir áramótin er borgin undirlögð af flugeldarusli sem grotnar niður og verður að drullu og sóðaskap. Þó svo að flugeldar séu úr pappa, þá er notaðu leir í botninn sem gerir það að verkum að pappinn er ekki hæfur til endurvinnslu. Þar af leiðandi fer flugeldarusl í gám fyrir blandaðan úrgang á næstu endurvinnslustöð, nema ósprungnir flugeldar - þeir fara í spilliefnagáma.

Á myndinni má sjá hvernig skal flokka hin ýmsu efni sem tengjast jólum og áramótum og hvert hægt er að skila þeim.

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is