6. nóv. 2018

Reykjavík býður íbúum upp á Spillivagninn sem safnar raftækjum og spilliefnum

Reykjavíkurborg hefur tilraunaverkefni um söfnun raftækja og spilliefna frá heimilum í Reykjavík til að auka flokkun og skil raftækja og spilliefna.  Markmiðið er að þessi flokkur sé meðhöndlaður með réttum hætti.

Söfnunarbíll, sem hlotið hefur nafnið Spillivagninn, mun á næstu mánuðum fara um hverfi borgarinnar og auðvelda íbúum að losna við smærri raftæki og spilliefni á öruggan hátt. Borgarbúar munu geta komið smærri raftækjum og spilliefnum í Spillivagninn á ákveðnum stöðum á ákveðnum tíma.

Lögum samkvæmt er bannað að henda spilliefnum í gráu tunnuna undir blandaðan úrgang. Engu að síður má ætla að um 150 tonn af raftækjum og spilliefnum hafi farið þá leið og verið urðuð í Álfsnesi í fyrra. Raftæki sem hafa þjónað sínum tilgangi innihalda oft spilliefni, en einnig ýmis verðmæt og jafnvel sjaldgæf hráefni og jafnvel nýtanlega hluti sem æskilegt er að endurvinna og nýta í framleiðslu nýrra raftækja eða annarra hluta.

Átakið er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, SORPU bs. og Efnamóttökunnar og mun það standa yfir í nóvember 2018 og aftur í apríl 2019.

Hvað hirðir Spillivagninn?

Rafhlöður og rafgeyma / ljósaperur og hitamæla / Málningu, grunna, bón, viðarvörn, lím og lökk, hreinsiefni og lífræn leysiefni / stíflueyðir / eitur; skordýra-, rottu- og illgresis/ olíu og feiti /raftæki, s.s brauðristar, vöfflujárn, hárblásara, síma, rakvélar, snúrur, spjaldtölvur, sléttujárn og ýmislegt fleira.

  • Íbúar með meira en 20 lítra eða 15 kg af slíkum af spilliefnum er beint á Endurvinnslustöðvar SORPU.
  • Raftæki mega ekki vera meira en 50 cm á kant
  • Ekki tekið við fyrirtækjaúrgangi

Nánari upplýsingar eru að finna á heimasíðu verkefnisins hér.

 

Áætlun Spillivagnsins fram að jólum

Laugardalur – við Laugardalslaug, föstudaginn 9. nóv. kl. 15–20

Hlíðar– við Kjarvalsstaði, þriðjudaginn 13. nóv. kl. 15–20

Bústaðir/Háleiti – við Austurver, miðvikudaginn 14. nóv. kl. 15–20

Miðborg – við Ráðhúsið, fimmtudaginn 15. nóv. kl. 15–20

Breiðholt – við Breiðholtslaug, þriðjudaginn 20. nóv. kl. 15–20

Vesturbær – við Vesturbæjarlaug, mánudaginn 26. nóv. kl. 15–20

Grafarholt/Úlfarsárdalur – við grenndarstöð við Þjóðhildarstíg, miðvikudaginn 28. nóv. kl. 15–20

Kjalarnes – við grenndarstöð Vallargrund, fimmtudaginn 29. nóv. kl. 15–20

Árbær – við Árbæjarlaug, þriðjudaginn 4. des. kl. 15–20


Grafarvogur – við Spöngina, fimmtudaginn 6. des. kl. 15–20

              

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is