15. feb. 2017

Magn úrgangs á endurvinnslustöðvar eykst um 15% milli ára.

Í tilefni af frétt Morgunblaðsins og frétt á mbl.is þar sem fjallað er um hækkun endurvinnslustöðvagjalds í Reykjavík þykir SORPU rétt að koma nokkrum staðreyndum á framfæri.

Rekstrarkostnaður endurvinnslustöðva SORPU og sveitarfélaganna er í beinu samhengi við það magn úrgangs sem þangað berst. Mismunandi kostnaður felst í meðhöndlun ólíkra úrgangstegunda en kostnaður er oftast lægstur við flokkaðan úrgang, sem á sér skilgreindan endurvinnslufarveg. Sem dæmi má nefna fatnað til Rauða krossins, bylgjupappa og aðrar pappírsumbúðir sem bera úrvinnslugjald. Grófur úrgangur, s.s. innréttingar, ónýt húsgögn, gólfefni o.þ.h er sá flokkur úrgangs sem er dýrast að meðhöndla. Skýrist það af því að þennan úrgang þarf oftast að grófflokka á áfangastað áður en hann er svo hakkaður, baggaður og urðaður. Að hluta til skýrist hækkandi kostnaður endurvinnslustöðvanna líka af því að efni eins og brotajárn hefur hrapað í verði.  Brotajárn var áður tekjulind endurvinnslustöðvanna en nú þarf að greiða með efninu.  Greiðslur Úrvinnslusjóðs eru langt undir þeim kostnaði sem eðlilegt og sanngjarnt er að sjóðurinn greiði vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs en ekki hefur fengist leiðrétting á þessum þætti.  Ofangreint, ásamt hækkunum launa vegna kjarasamninga hafa hækkað kostnað endurvinnslustöðvanna og þar með sveitarfélaganna langt umfram áætlanir.

Magn úrgangs sem berst inn á endurvinnslustöðvar hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár en árið 2016 var það stærsta í sögu stöðvanna þegar tekið var við yfir 45.000 tonnum úrgangs. Til samanburðar var tekið við 28.500 tonnum árið 2010. Á milli áranna 2015 og 2016 var aukningin um 15% og voru heimsóknir á stöðvarnar yfir 850.000 talsins árið 2016. Þessi aukning er nokkuð í takt við hagvöxt og kaupmáttaraukningu.  Mesta aukningin er í grófum úrgangi sem skýrir að stærstum hluta aukinn rekstrarkostnað stöðvanna.

SORPA rekur endurvinnslustöðvarnar fyrir hönd eigenda sinna, sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Gjald er innheimt fyrir gjaldskyldan úrgang frá fyrirtækjum og heimilum en íbúar skila úrgangi frá daglegum heimilisrekstri sér að kostnaðarlausu. Sveitarfélögin greiða mismun á eigin tekjum endurvinnslustöðvanna og rekstri og er misjafnt hvort þau leggja á sérstakt gjald vegna þessa eða greiða fyrir reksturinn úr sameiginlegum sjóðum. Sú ákvörðun er alfarið á hendi hvers sveitarfélags. Rekstur byggðasamlagsins SORPU bs. er hins vegar utan við rekstur endurvinnslustöðanna enda er byggðasamlagið rekið á öðrum forsendum og á annan hátt en endurvinnslustöðvarnar.

Aðhalds er gætt í rekstri stöðvanna eins og kostur er.  SORPA nýtir útboð eins og mögulegt er og því sinna einkaaðilar stórum hluta rekstursins. Um næstu mánaðarmót verður opnunartíma stöðvanna breytt og mönnun með það í huga að draga úr kostnaði.  Mestur árangur í að draga úr kostnaði næst hins vegar með því að íbúar lágmarki þann úrgang sem berst endurvinnslustöðvunum og að sá úrgangur sem berst sé rétt flokkaður.  Á endurvinnslustöðvum SORPU má að jafnaði skila 35 tegundum flokkaðs úrgangs, er þó háð árstíma. 

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is