9. okt. 2018

Gríðarleg sóun í raftækjum sem daga uppi í geymslum eða enda á urðunarstöðum

 
 
 
 
 
 
 

 
 
Laugardaginn 13. október 2018 verður fyrsti alþjóðlegi átaksdagurinn um endurvinnslu raftækja haldinn í heiminum. SORPA er þátttakandi í átakinu og leggur á næstu dögum sérstaka áherslu á að miðla upplýsingum um raftæki á samfélagsmiðlum og endurvinnslustöðvum og hvetja íbúa til að skila þeim í réttan farveg. Átakið er sett af stað að frumkvæði WEEE Forum og verður haldið í 20 löndum af um 40 aðilum til þess að vekja athygli á endurvinnslu raftækjaúrgangs, hvetja neytendur til að skila raftækjum og auka árangur í endurvinnslu. 
 
Stefnt er að því að viðburðurinn verði haldinn árlega um allan heim undir heitinu International E-Waste Day en Úrvinnslusjóður heldur utan um átakið hér á landi. WEEE-forum eru alþjóðleg samtök aðila sem fara með framleiðendaábyrgð vegna raf- og rafeindatækjaúrgangs http://www.weee-forum.org/what-is-the-weee-forum. 
 
40 milljónir tonna í ruslið
Talið er að um 50 milljón tonn af raftækjaúrgangi falli til á heimsvísu á árinu 2018. Einungis 20% af raftækjaúrgangi í heiminum er endurunninn sem þýðir að um 40 milljónir tonna fara annað hvort í urðun, brennslu eða eru meðhöndluð á óásættanlegan hátt. Þó eru 66% af íbúum heimsins með löggjöf um raftækjaúrgang sem ætlað er að tryggja rétta meðhöndlun hans. 
 
Gríðarlegt tap verðmætra og sjaldæfra efna, s.s. gulls og silfurs, á sér stað þegar ekki er staðið rétt að meðhöndlun raftækja og þau enda t.d. á urðunarstað. Ýmis hættuleg efni eru að auki í raftækjum sem þarf að meðhöndla og farga á réttan hátt. Sérhæfð endurvinnsla tækjanna gerir betur kleift að ná til baka málmum og sjaldgæfum jarðefnum, sem eru ýmist til í litlu magni eða mjög erfitt er að vinna úr jörðu. Þannig er hægt að nýta þau aftur en einnig er dregið úr líkunum á að hættuleg efni berist út í umhverfið. 
 
Neytendur gegna lykilhlutverki varðandi endurvinnslu raftækja og eru miklar væntingar um að átakið geti haft áhrif á venjur þeirra varðandi skil á þeim raftækjum sem þeir eru hættir að nota. Til dæmis eru á hverju heimili í Belgíu að meðaltali 79 raf- og rafeindatæki og um 47 ljósaperur. Ónotuð raftæki á heimilum eru í raun hráefnanáma sem mikilvægt er að nýta. 
 
Á Íslandi eru þátttakendur í átaki ársins 2018 fjölmargir auk SORPU, s.s. Umhverfisstofnun, Efnamóttakan, Efnarás, Íslenska gámafélagið, Heimilistæki, Reykjavíkurborg og fleiri sveitarfélög. 
 

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is