15. sep. 2017

Aukin endurvinnsla á plasti

Vélrænn flokkunarbúnaður settur upp í móttökustöð SORPU í byrjun næsta árs

Tilraunaverkefni SORPU um plastsöfnun á Seltjarnarnesi er nú formlega lokið og niðurstöður liggja fyrir. Verkefnið stóð yfir í um ár, frá 30. maí 2016, og voru niðurstöður kynntar stjórn SORPU í vor. Framkvæmdastjóra SORPU var í kjölfarið falið að undirbúa uppsetningu tækjabúnaðar í móttöku- og flokkunarstöð, sem ætlað er að flokka poka með plasti til endurvinnslu frá öðrum heimilisúrgangi. Er það einföld, hagkvæm og umhverfisvæn leið til að auka plastendurvinnslu og munu íbúar höfuðborgarsvæðisins geta nýtt lausnina samhliða grenndargámum, endurvinnslustöðvum og öðrum sérlausnum sveitarfélaga og einkaaðila. Nú þegar er tekið við sjö flokkum af plasti í móttökustöð, líkt og sjá má í gjaldskrá SORPU. Hagrænn hvati er fyrir sveitarfélög og atvinnulífið að skila plastumbúðum, sem bera úrvinnslugjald, til endurvinnslu og fæst endurgreiðsla fyrir efnið háð magni.

Tilraunaverkefnið á Seltjarnarnesi

Íbúar á Seltjarnarnesi hafa undanfarið ár getað skilað plasti til endurvinnslu í sérstökum 100% endurunnum pokum sem þeir hafa fengið sér að kostnaðarlausu í íþróttamiðstöðinni. Pokana með plastinu hafa íbúar svo sett í gráu heimilistunnuna, ásamt öðrum heimilisúrgangi. Sorphirðubílar á vegum Seltjarnarness flytja efni gráu tunnunnar í móttökustöð SORPU í Gufunesi. Þar sér starfsfólk um að flokka pokana með plastinu frá öðrum úrgangi með vélum. Plastið er síðan baggað og sent til Svíþjóðar í endurvinnslu. Þar er það flokkað eftir plasttegundum, hreinsað, malað og svo nýtt sem hráefni í margvíslegar nýjar plastvörur. Plast af lélegum gæðum, s.s. samsettar umbúðir, nýtast sem orkugjafi við framleiðslu á heitu vatni og rafmagni. Helsti kostur aðferðarinnar er að ekki þarf að breyta fyrirkomulagi sorphirðu með neinum hætti og söfnunin felur því ekki í sér aukinn kostnað vegna hirðu. Rétt er að undirstrika að eingöngu heimilisúrgangur frá Seltjarnarnesi er meðhöndlaður með þessum hætti í dag. Því eru  pokar með plasti sem berast í úrgangi úr orkutunnunni frá öðrum sveitarfélögum ekki flokkaðir frá til endurvinnslu. 

Gæði efnis og árangur tilraunaverkefnisins

Í nóvember 2016, þegar nokkur reynsla var komin á söfnunina, var gerð rannsókn á gæðum plastsins sem íbúar skila í þennan farveg. Reyndust gæðin vera ágæt og hlutfall umbúða sambærilegt því sem gerist í grenndargámum, eða í kringum 80% af plastinu. Um áramót þegar magntölur voru skoðaðar hafði plastsöfnun á Seltjarnarnesi fimmfaldast miðað við árið 2015.
 
Söfnun á plasti jókst jafnt og þétt yfir tímabil tilraunaverkefnisins og var enn að aukast eftir áramót. Verði söfnun á plasti áfram sambærileg og hún hefur verið það sem af er árinu 2017 munu 11,5 tonn safnast á ársgrundvelli. Miðað við að alls söfnuðust 1.680 kg í grenndargám árið 2015, berst nú um 6,9 sinnum meira magn af plasti til endurvinnslu með tilkomu verkefnisins. Á íbúa er það um 2,6 kg og vísbending er um að magnið haldi áfram að aukast. Íbúar á Seltjarnarnesi skila einnig plasti á endurvinnslustöðina við Ánanaust, mögulega svipað og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu, eða um 2,9 kg á íbúa á ári. Það plast er með mun lægra hlutfalli af umbúðum og er oftast um stærri plasthluti að ræða.
 
Markmið tilraunaverkefnisins var að ná 15 kg af plasti, af um 30 kg, sem fara í sorptunnuna frá hverjum íbúa. Á Seltjarnarnesi safnast nú um 5,5 kg á íbúa sem eru í kringum 14% af því plasti sem til fellur*. 

Næstu skref

Íbúar á Seltjarnarnesi munu áfram geta nálgast 100% endurunna plastpoka, sem sérstaklega eru ætlaðir undir flokkaðar plastumbúðir, eða allt þar til uppsetningu tækjabúnaðar er lokið. Pokarnir eru aðgengilegir í íþróttamiðstöðinni og á fleiri völdum stöðum á Seltjarnarnesi. Þegar uppsetningu tækjabúnaðar er lokið munu íbúar fleiri sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu einnig geta nýtt sér þessa flokkunaraðferð, samhliða möguleikum á sérsöfnun, og verður það kynnt sérstaklega þegar þar að kemur.
 
Gert er ráð fyrir að uppsetningu tækjabúnaðarins verði lokið upp úr áramótum. Tækjabúnaðurinn mun meta eðlisþyngd úrgangs og verður pokum með plasti blásið frá öðrum úrgangi. Ekki mun þá þurfa neina sérstaka poka undir plastið og geta íbúar þá einfaldlega notað þá poka sem til falla á heimilum. Aðferðin er einföld, hagkvæm, leiðir af sér verulegan umhverfisávinning og hefur aukna þjónustu við íbúa að leiðarljósi.
 

Að undanskildum plastflöskum með skilagjaldi sem eiga sérstakan endurvinnslufarveg í gegnum Endurvinnsluna hf. Um 85% þeirra skila sér aftur til endurvinnslu.

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is