7. nóv. 2017

Dregið úr kolefnisspori Íslands með endurvinnslu á timbri

Gestur Pétursson, forstjóri Elkem Ísland og Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri SORPU.Elkem Ísland og SORPA bs. hafa gert með sér formlegan samstarfssamning um að Elkem Ísland á Grundartanga taki við timbri sem fellur til hjá SORPU og nýti sem hráefni inn á ljósbogaofna fyrirtækisins. Timbrið er kurlað og er notað til að draga úr notkun óendurnýjanlegra kolefnisgjafa við vinnslu kísilmálms. Um er að ræða um 8.000 tonn af timbri sem fellur til hjá fyrirtækjum og einstaklingum á hverju ári og má því telja verkefnið eitt af stærri endurvinnsluverkefnum landsins. 
 
Timbur er kolefnishlutlaust og notkun þess dregur þar með úr kolefnisspori fyrirtækisins um 14.000 tonn af koldíoxíði á ári. Þá má gera ráð fyrir að það að forða timbrinu frá urðun spari útblástur sem samsvarar yfir 4.000 tonnum af koldíoxíði á ári. Samanlagður ávinningur jafngildir því að leggja um 6.800 bílum. 
 
Alls hefur Elkem Ísland dregið úr losun koldíoxíðs um 50.000 tonn á ári með notkun endurvinnslutimburs og timburs úr sjálfbærri skógrækt á Íslandi og erlendis og er stefnt að enn frekari mótvægisaðgerðum sem miða að því að framleiðslan verða kolefnishlutlaus. Þess má geta að 50.000 tonn of koldíoxíði jafnast á við 550 flugferðir til Kaupmannahafnar.

Margvíslegur ávinningur fyrir umhverfið

Timbur er yfirleitt nýtt sem orkugjafi erlendis en virkjun endurnýjanlegra orkuauðlinda, og þar með vistvænni orkuframleiðsla hérlendis, gerir það að verkum að timbrið nýtist betur á þennan hátt. Þegar viður er urðaður, brotnar hann niður og við niðurbrotið myndast koldíoxíð og metangas, sem er öflug gróðurhúsalofttegund. Með nýtingu viðarins er því einnig dregið úr umhverfisáhrifum vegna urðunar úrgangs, auk þess sem landssvæði sparast. Þetta undirstrikar enn frekar mikilvægi þess að flokka timbrið, auka nýtingu þess og draga þannig úr því magni sem fer til urðunar. 
 
Elkem Ísland og SORPA hafa verið í farsælu samstarfi frá árinu 1991 og með undirritun samningsins skuldbinda fyrirtækin sig formlega til að halda áfram að vinna saman að þróun lausna við endurnýtingu og endurvinnslu og draga þannig úr kolefnisspori beggja fyrirtækja. 

 

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is