25. apr. 2017

Dagur umhverfisins í dag - Neyslumenningin hið raunverulega umhverfisvandamál

Umræður um plast í umhverfinu hafa verið töluverðar að undanförnu. Plastið sem fannst í maga hvals af tegundinni gáshnallur í byrjun árs, örplast í skólpi sem virkar sem flutningsleið mengandi efna inn í fæðukeðjuna, og spár um að plastmagn í hafi verði meira en magn fiska árið 2050 vöktu athygli. Allt eru þetta sláandi fréttir sem vert er að gefa gaum. Við stöndum auk þess frammi fyrir alvarlegri umhverfisvanda en nokkru sinni, þ.e. loftslagsbreytingum af mannavöldum, sem tengjast fyrst og fremst notkun mannsins á jarðefnaeldsneyti, þó aðrir þættir spili þar einnig inn í. Og hvað geta þeir sem vilja leggja sitt lóð á vogarskálarnar gert? Eru umbúðir og vörur úr plasti verri í umhverfislegu tilliti en umbúðir og vörur úr öðrum efnum? Og hver er þá besti kosturinn?

Svarið liggur ekki alltaf í augum uppi. Oftast er það svo að vinnsla hráefna og framleiðsla vöru úr mismunandi efnistegundum er það sem veldur mestum umhverfisáhrifum á lífsferli vöru. Sótspor plastumbúða er oftast minna en umbúða úr öðrum efnum, s.s. pappírs, umbúða úr niðurbrjótanlegum efnum, úr gleri, málmi o.s.frv. Plastumbúðirnar valda hins vegar mun meiri vanda í umhverfinu en umbúðir úr öðrum efnum, sé umgengi mannsins um plastið ekki rétt, eins og ofangreindar fréttir gefa til kynna.

Hið raunverulega umhverfisvandamál er neyslumynstur okkar sem byggjum hinn vestræna heim. Við umgöngumst æ fleiri hluti eins og þeir séu einnota, ekki bara umbúðir, heldur líka fatnað og jafnvel raftæki, sem endast oft aðeins í skamman tíma. Við viljum fatnað og vörur framleiddar samkvæmt nýjustu tískustraumum og vörurnar eiga að berast neytendum fljótt og örugglega á viðráðanlegu verði. Áhrifin birtast í framleiðsluferlinu, sem oft fer fram á fjarlægum slóðum við vinnu- og umhverfisskilyrði sem eru með öllu óásættanleg í vestrænum heimi og þar sem mengunarvarnir eru litlar sem engar. Þegar við brunum ein um á kraftmiklum bensínhákum eða kaupum okkur helgarferð til útlanda af því hún er á svo góðu verði, leiðum við hugann lítið að þeim umhverfisáhrifum sem fylgja. Ef við ætlum raunverulega að sporna við loftslagsbreytingum af mannavöldum, tryggja að allt mannkyn hafi aðgang að hreinu drykkjarvatni og draga úr heilsuspillandi efnum í umhverfi manna og dýra, verðum við að ráðast að rót vandans. Það er ekki nóg að skipta úr einnota plastumbúðum yfir í einnota niðurbrjótanlegar umbúðir eða flokka ruslið sitt betur. Allt okkar neyslumynstur verður að breytast!

Í töflunni má sjá dæmi um sótspor mismunandi aðgerða í okkar daglega lífi. Útblástur vegna flugferðar til Boston jafngildir nánast ársakstri á Yaris. Val okkar á bílum skiptir umtalsverðu máli líkt og sjá má í samanburði á útblæstri mismunandi tegunda. Að draga úr myndun úrgangs er best en útblástur sparast þó einnig með því að endurnota og endurvinna það sem til fellur, líkt og sjá má í töflunni.
 

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is