2. nóv. 2016

Af hverju má ekki hirða úr gámum á endurvinnslustöðvum?

Ein af algengustu fyrirspurnum sem okkur berast hjá SORPU er það hvort fólk megi koma á endurvinnslustöðvar og hirða úr gámunum.

Tilgangur endurvinnslustöðva SORPU er að taka við flokkuðum úrgangi til endurnota, endurnýtingar og til förgunar ásamt öðrum úrgangi sem sorphirða sveitarfélaganna safnar ekki með heimilisúrgangi.

Það er ekki tilgangur stöðvanna að vera með aðstöðu fyrir almenning til að skoða og hirða úr úrganginum.

Helstu ástæður þess að það er bannað að gramsa og hirða úr gámunum á endurvinnslustöðvunum eru eftirfarandi:

Öryggismál
Aðstaða til að skoða og hirða hirða úrgang er ekki til staðar.  Úrgangur og endurvinnanleg efni eru að jafnaði geymd í gámum sem hættulegt er fyrir almenning að fara ofaní. Við gámana er fallhætta og eins er hægt að verða  fyrir skaða af t.d. nöglum og gleri. Töluverð áhætta er vegna úrgangs sem aðrir viðskiptavinir eru að henda á sama tíma.  Ýmiskonar óhreinindi geta fylgt úrganginum sem erfitt er að tryggja að smitist ekki á þá sem handleika úrganginn eftir að honum hefur verið hent.  SORPA getur ekki ábyrgst öryggi þeirra sem eru að hirða úr þeim úrgangi sem hent hefur verið á endurvinnslustöðvunum – við yrðum þó væntanleg alltaf ábyrg þar sem þetta er vinnusvæði í umsjá okkar.  Í einhverjum tilvikum getur það einnig verið þannig að fólk vill henda hlutum t.d. úr dánarbúum og kærir sig ekki um að sjá hlutina nýtta hjá öðrum – slíkt verður að virða.

Aðstaða
Aðstaða til að skoða og hirða úrgang er ekki til staðar.  Endurvinnslustöðvunum er þröngt sniðinn stakkur, hvort sem horft er á eiginlegar stærðir, opnunartíma eða mannahald.  Ekkert pláss er á endurvinnslustöðvunum til að almenningur geti athafnað sig við slíka iðju.  Mönnun stöðvanna er nú þegar með minnsta móti þ.a. bæta þyrfti við mannskap til að hafa umsjón og fylgjast með slíkri starfsemi auk þess sem koma þyrfti upp ásættanlegri aðstöðu – fjármunir til slíks er ekki að finna í rekstrarfé endurvinnslustöðvanna.

Núverandi farvegur fyrir efni til endurnotkunar er til staðar – Góði Hirðirinn
Góði hirðirinn (nytjamarkaður)  er farvegur fyrir húsmuni og aðra þá hluti og vörur sem fólk og fyrirtæki flokkar í þeim tilgangi að viðkomandi hlutur sé notaður aftur og áfram. Þessi farvegur á að þjóna fyrir flesta þá hluti sem eru áfram nothæfir og eftirspurn er eftir. Þróun og tíska er þess valdandi að sumir hlutir, þrátt fyrir að vera að fullu nothæfir, eiga ekki framtíð, t.d. VHS spólur, túpusjónvörp og óhreinar rúmdýnur eru dæmi um slíka hluti. Allar ábendingar um hluti sem vilji er til að kaupa í verslun Góða Hirðisins eru vel þegnar (til dæmis gömul hurð og karmur).  Í þessu sambandi er líka rétt að benda á að hinn rétti farvegur fyrir það efni sem fólk vill gefa til endurnota eða óskar eftir til endurnota er á sérstökum síðum á netinu (t.d. bland.is) eða í smáauglýsingum dagblaðanna finnist þess ekki staður í Góða hirðinum.


Árangur almennings við flokkun og ráðstöfun úrgangs til endurnota og nýtingar er verlegur sem sannast þegar tölur endurvinnslustöðvanna er skoðaður.
Endurvinnslustöðvarnar móttaka árlega um 40.000 tonnum af úrgangi og endurvinnsluefnum. Um 67% fara í endurnotkun eða endurvinnslu og um 33% fara í urðun. Unnið er markvisst að því að minnka urðunarhlutfallið. Sem dæmi þar um, þá hefur núna verið bannað að setja pappír og föt í  blandaða gáminn og farið fram á að allur úrgangur í blandaða gáminn komi í glærum pokum til  að auðvelda eftirlitið.

Heimsóknir á endurvinnslustöðvarnar eru yfir 800.000 á ári og miðað við þá aðstöðu (pláss og tíma)  sem stöðvunum er úthlutað í dag þá er ekki svigrúm til að bæta við heimsóknum þeirra sem vilja skoða og hirða á stöðvunum. Á það er einnig að benda að hvergi þar sem við þekkjum til (í Skandinavíu eða norður evrópu) er slíkt plokk (e. „scavenging“) úr gámum leyft.

Stefna SORPU bs. hvað varðar endurnotkun er að efla og byggja upp skiptisamfélagið. Fræðsla og miðlun eru svo áhrifarík leið til að komast áfram í þá átt.

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is