29. nóv. 2017

Af hverju er ekki tekið við öllum nothæfum hlutum í gám Góða hirðisins hjá SORPU?

Úrgangur sem berst inn á endurvinnslustöðvar hefur aldrei verið meiri en á árinu sem er að líða og helst magnið  í hendur við aukið góðæri í þjóðfélaginu. Aukið magn hefur einnig skilað sér í nytjagáma Góða hirðisins á stöðvunum en þeir eru ætlaðir nothæfum og seljanlegum húsbúnaði og nytjahlutum.

Í hverri viku berast um 25 gámar af nytjahlutum í Góða hirðinn og er í raun komið nálægt þolmörkum þess sem búðin getur annað í núverandi stærð. Samhliða auknu magni til Góða hirðisins hefur hlutfall hluta sem ekki seljast aukist. Erfitt er að fullyrða um hver ástæðan fyrir minni sölu er en líklegt verður að telja að aukinni hagsæld fylgi minni eftirspurn eftir notuðum hlutum.

Ástæður þess að hlutir seljast ekki geta þó verið margvíslegar. Sem dæmi má nefna að stundum er mikið magn svipaðrar vöru til í búðinni, í einhverjum tilfellum eru hlutirnir ekki nógu vel farnir til að seljast, ekki nógu vel pakkað til að þola flutninginn og svona mætti lengi telja. Starfsmenn fá það erfiða hlutverk að meta hvaða hlutir eiga heima í búðinni hverju sinni út frá því hvað er til á lager í Góða hirðinum og hvað reynslan segir að seljist eða seljist ekki. Starfsmenn eru ekki óskeikulir en gera sitt besta til að koma því sem hægt er í endurnotkun.

Óhjákvæmilega fylgir kostnaður því að senda gáma frá endurvinnslustöðvum í Góða hirðinn og mikil vinna fer í að flokka óseljanlega og jafnvel ónýta hluti frá þeim sem fara í búðina. Góði hirðirinn ber svo aftur kostnað af því að senda það sem ekki selst í annan endurnýtingarfarveg eða sem síðasta kost í förgun. Til dæmis fara bækur sem ekki seljast í pappírsendurvinnslu en grófur úrgangur, t.d. rúmdýnur í förgun.

Það er samfélagsábyrgð SORPU að auka skilvirkni og draga úr sóun eins og kostur er. Í því skyni hafa starfsmenn Góða hirðisins m.a. farið á endurvinnslustöðvarnar um helgar til að leiðbeina um hvað á heima í nytjagámi og hvað ekki og getur það verið mismunandi eftir hver staðan á lager er hverju sinni.

Árlega fara um 1000 tonn af hlutum í endurnotkun í gegnum Góða hirðinn og ágóðinn af sölunni rennur allur til góðgerðarmála. Að auki skapar verslunin um 25 störf svo áhrif markaðirins eru jákvæð á margvíslegan hátt. Stöðug magnaukning á endurvinnslustöðvum, um 15% ár hvert síðastliðin þrjú ár, er hins vegar áskorun. Við erum komin að þanþoli bæði hvað umferð um einstakar endurvinnslustöðvar og stærð nytjamarkaðarins varðar. Við biðjum þá viðskiptavini sem verða fyrir því að hlutum frá þeim í Góða hirðinn er hafnað að sýna okkur skilning. Við hvetjum jafnframt til nýtingar á öðrum leiðum til að koma hlutum í endurnotkun og bendum á síður á samfélagsmiðlum sem auglýsa hluti gefins, bland.is, safnarabúðir og aðra nytjamarkaði.

Á flokkunarvef SORPU er nánar fjallað um þau atriði sem þarf að hafa í huga áður en hlutum er skilað í gám Góða hirðisins  

          

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is