13. okt. 2016

95% endurnýting, gas- og jarðgerðarstöð rís í Álfsnesi


Með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvar SORPU sem áætlað er að rísi í Álfsnesi árið 2018 verður raunhæfur möguleiki að endurnýta um 95% af öllum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu.

Metanvinnsla SORPU mun aukast til muna með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvar og heildarframleiðslan frá stöðinni og urðunarstaðnum duga til að knýja um 7-8.000 metanbíla. Auk þess mun stöðin skila um 10-12.000 tonnum af jarðvegsbæti sem nýta má til uppgræðslu lands. Úr plastúrgangi og öðrum leifum, sem óhæfar eru í annars konar endurvinnslu, verður annað hvort framleitt brenni sem nýtist sem orkugjafi eða díselolía sem nýtist sem ökutækjaeldsneyti.

Lífrænn úrgangur verður eldsneyti 

Margfalt minni útblástur

Frá árinu 2000 hefur SORPA framleitt eldsneytið metan úr lífrænum úrgangi sem berst á urðunarstaðinn í Álfsnesi. Þetta er verðugt verkefni því spöruð gróðurhúsaáhrif eru um 310.000 tonn af CO2.

Í dag eru um 70% úrgangs sem fer í gráu heimilistunnuna lífræn efni, t.d. matarleifar og annar  eldhúsúrgangur, pappírsefni, garðaúrgangur, bleiur, textíll og timbur. Úrgangurinn er urðaður í Álfsnesi en SORPA framleiðir vistvæna eldsneytið metan úr hauggasi sem myndast við niðurbrot lífrænna efna.
Metanið í hauggasinu er mjög orkuríkt, en einnig áhrifarík gróðurhúsalofttegund eða 25 sinnum áhrifameiri en koltvísýringur. Metangasframleiðsla í Álfsnesi árið 2015 samsvaraði um 2 milljónum bensínlítra þannig að matarleifar allra höfuðborgarbúa eru endurnýttar með þessum hætti og þannig dregið úr notkun á jarðefnaeldsneyti, s.s. bensíni og dísel. Í dag nýtast þó næringarefnin í lífræna hluta heimilisúrgangsins ekki en það mun breytast með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar.

Efni gráu heimilistunnunnar (orkutunnu) fer í gas- og jarðgerðarstöð
Um 44% efnisins í heimilistunnunni er eldhúsúrgangur sem er að mestu lífrænn (matarleifar, bein, gæludýraúrgangur, ryksugupokar o.þ.h.). Það er sá úrgangur sem mun eiga heima í gas- og jarðgerðarstöðinni, auk bleia og pappírsefna sem eru óhæf í annars konar endurvinnslu. Áhersla mun verða á að ákveðin efni séu flokkuð frá heimilisúrgangi, s.s. pappír, fatnaður, gler, spilliefni, raftæki o.fl. og komið í endurvinnslu í gegnum grenndargáma, blátunnu, endurvinnslustöðvar o.s.frv.

                  

Plast- og glersöfnun aukin
Framleiðsla á jarðvegsbæti í hæsta gæðaflokki krefst aukinnar flokkunar og vinnslu á gleri og steinefnum.

Söfnun á gleri hófst á 37 grenndarstöðvum árið 2016 og er stefnt að því að árið 2019 verði glergáma að finna á öllum grenndarstöðvum höfuðborgarsvæðisins. Gler nýtist nú sem fyllingarefni við framkvæmdir með sama hætti og möl. Þannig má draga úr námugreftri og umhverfisáhrifum slíkra framkvæmda

Undirbúningur er einnig hafinn að aukinni plastsöfnun og er SORPA m.a. í tilraunaverkefni með Seltjarnarnesbæ um söfnun plastumbúða í sérstaka poka sem svo eru flokkaðir frá heimilisúrgangi í móttökustöð SORPU í Gufunesi. Niðurstaða verkefnisins mun nýtast SORPU og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu til ákvarðana um framtíðarlausnir á söfnun plastefna. Líklegt er að um einhverskonar vélræna flokkun verði að ræða en nú þegar er vélræn flokkun á málmi í heimilisúrgangi og bylgjupappa sem er flokkaður frá öðrum pappírsefnum úr blátunnu. Einnig hefur Reykjavíkurborg boðið íbúum að fá sérstaka tunnu undir plastumbúðir og hefur það aukið plastsöfnun í borginni.

Gas- og jarðgerðarstöð er hagkvæmasta og umhverfisvænasta lausnin á vinnslu lífræns heimilisúrgangs

SORPA er byggðasamlag í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið er rekið án hagnaðarsjónarmiða og með umhverfið að leiðarljósi.

Stefna eigenda SORPU er að urðun lífræns úrgangs verði hætt árið 2020, líkt og fram kemur í Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2009-2020. 

Gas- og jarðgerðarstöð er niðurstaða umfangsmikillar greiningarvinnu á árangri og kostnaði við mismunandi leiðir í söfnun og meðhöndlun á heimilisúrgangi. Meðal annars var gerð lífsferilsgreining þar sem metin voru umhverfisáhrif mismunandi lausna. Samanburður var gerður á því að jarðgera eingöngu matarleifar annars vegar og hins vegar að framleiða bæði gas og jarðvegsbæti úr heimilisúrgangi. Niðurstaðan var meðal annars að um þriðjungi minni útblástur gróðurhúsalofttegunda verður til ef sú aðferð er notuð að framleiða bæði gas- og jarðvegsbæti.

Eitt stærsta umhverfisvandamálið sem við stöndum frammi fyrir eru loftslagsbreytingar af mannavöldum. Gas- og jarðgerðarstöð, samhliða aukinni endurvinnslu á textíl, pappírsefnum, plasti og málmum, verður mikilvægt framlag íbúa höfuðborgarsvæðisins í baráttunni við að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

 

 

 

 

 

SORPA vill heyra frá þér!

SORPA Gylfaflöt 5, 112 Reykjavík
Sími 520 2200  sorpa@sorpa.is